Hér verður safnað saman ummælum innlendra og erlendra kennara um
lausnaleitarnám og fleira sem því tengist beint eða óbeint samanber ummæli
dr. Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors sem birt eru til umhugsunar fyrir þá sem eru að kynna sér
nýja og breytta kennsluhætti:
Ingvar
Sigurgeirsson, prófessor:
Oft er því haldið fram að
í skólastarfi, einkum í grunnskólum og á bóknámsbrautum í framhaldsskólum,
sé fullt af tilbúnum viðfangsefnum, nánast gerviviðfangsefnum, sem séu
í litlum sem engum tengslum við raunverulegt líf utan skólans. Það er
eins og það vilji gleymast að hlutverk skólans er að búa nemendur undir
alvöru lífsins, líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi eins og það heitir
gjarnan á laga- og námskrármáli. Því má færa fyrir því rök að allt of
lítið sé af því gert á öllum skólastigum að fá nemendum raunveruleg
viðfangsefni að glíma við. [>>Nánar]
Erla
Kristjánsdóttir, lektor:
Ég tel lausnaleitarnám mjög góða aðferð, sérstaklega
í starfsmenntunarnámi. Það er einkar hentug aðferð til að tengja fræðilega
lesningu við raunveruleikann og til að nemendur nái tökum á því að
nýta raunhæft lesefni (og upplýsingar) í starfi. Ég er þeirrar skoðunar
að próf séu úreld fyrirbæri en að það sé nauðsynlegt fyrir bæði
kennara og nemendur að hafa námsmat. Ég hef notað lausnaleit með
nemendum á 1. misseri í staðbundnu námi og á 3. misseri í fjarnámi.
Í báðum tilvikum leita nemendur nauðsynlegra upplýsinga á Netinu til
viðbótar við lesefni námskeiðanna.
María
Björg Kristjánsdóttir og Sigurlaug Kristmannsdóttir,
líffræðikennarar:
Við höfum reynt að hafa
fjölbreytileika í kennsluaðferðum og verkefnum og liður í því er að
nota leitarnámsaðferðir. Við
höfum notað verkefni sem byggja á lausnaleitarnámi í Nát103, aðallega
í tengslum við vist-og umhverfisfræði. Hér
má sjá dæmi um slík verkefni.
Í upphafi setjum við fram tiltekin viðfangsefni sem krefjast úrlausna.
Við höfum leitast við að hafa viðfangsefni raunveruleikatengd en það
er aðalgaldurinn að búa til verkefni sem vekja áhuga nemenda og örva
þá til upplýsingaleitar. [>>Nánar]
Kurt
Burch, Assistant Professor:
„Lausnaleitarnám er kennsluaðferð sem umbreytir þeirri
kennslu sem fram fer í skólastofunni yfir í nám" segir Kurt Burch
(2001) kennari við University of Delaware. Máli sínu til
stuðnings vitnar hann í kennslufræðilegar rannsóknir sem
sýna fram á að virkt nám [active learning] sé árangursríkasta
aðferðin til að læra, beita, samþætta og varðveita upplýsingar.
Einnig, að flestir nemendur kjósi frekar að stunda virkt,
vandamiðað nám vegna þess að það gerir þeim kleift að
halda utan um upplýsingar í þeirri röð sem þeir kjósa [from
concrete to abstract] (Burch, 2001).
______
Heimild:
Burch, Kurt (2001). PBL, Politics, and Democracy. Duch, Barbara
J., Groh, Susan E. og Allen, Deborah E. (ritstj.) THE POWER OF PROBLEM-BASED
LEARNING. Sterling, VA: Stylus Publishing, Inc.
Erla Kristjánsdóttir (2003). Tölvupóstur 28. apríl 2003.
Ingvar Sigurgeirsson (1999). Litróf kennsluaðferðanna.
Reykjavík. Æskan h.f. blaða- og bókaútgáfa.
María Björg Kristjánsdóttir og Sigurlaug Kristmannsdóttir (2003).
Tölvupóstur 2. apríl 2003.
Upp
© 2000
Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært:
17.07.2006
|