Í samantekt Wilkerson og
Gijselears
ritstjóra greinasafnsins Bringing Problem-Based Learning to Higher Education: Theory and
Practice (1996) kemur
fram að þó breytilegt sé hvernig
greinahöfundar telji að beita eigi lausnaleitarnámi þá séu að
minnsta kosti þrjú atriði
sameiginleg í lýsingu þeirra á helstu einkennum þess:
-
Lausnaleitarnám
[PBL] er nemendamiðað:
Nemendur hafa með það að gera
hversu mikið nám fer fram og hvernig það fer fram. Þeir eru virkir
þátttakendur í kennslustundum, spyrja spurninga, stinga upp á mögulegum
skýringum og meta vísbendingar á rökrænan hátt. Vandamálin hvetja
þá til að vinna saman að rannsókn og skýringum og minni þörf er á
hinum hefðbundnu kennslustofum þar sem kennarar beita svokallaðri
Sókratiskri spurnaraðferð [sjá t.d.Teaching
by Asking Instead of by Telling] eða bjóða upp á innihaldsríka
fyrirlestra.
Sjá skýringarmynd
sem sýnir hringrás lausnaleitarnáms
-
Hlutverk
kennara breytist í
lausnaleitarnámi frá því sem þeir eiga að venjast t.d. þegar
fyrirlestrarform er viðhaft:
Í lausnaleitarnámi eru kennarar fremur hjálparhellur en fræðarar
og áhorfendur fremur en
þátttakendur. Þeir sjá um þjálfun frá hliðarlínunni með
því að veita nemendum uppörvandi endurgjöf og hvetja nemendur til
dáða. Þeir leiða nemendur óbeint í gegnum það sem vandamálið
innifelur með þeim spurningum sem þeir bera fram. Þeir vita hvenær
þeir eiga að blanda sér í umræður nemenda til að fá þá til að
endurskoða eða rannsaka betur atriði sem leiða til dýpri
skilnings. Sömuleiðis vita þeir hvenær þeir eiga að halda sig
til hlés (þegja) og hve lengi þegar nemendur eru að glíma við að
safna saman skýringum eða lausnum.
-
Í
lausnaleitarnámi [PBL] eru það vandamálin sem móta þær
áherslur og hvatningu sem felast í náminu:
Framsetning vandamáls leggur grunninn að þeirri færni sem verið
er að byggja upp. Það er kynnt í byrjun nýs námsferlis, ekki
eftir röð fyrirlestra eða lestur námsefnis. Þessi vandamál eru
ólík þeim útdrætti (ágripi) eða spurningum úr námsefni sem
oft eru í lok hvers kafla í námsbókum. Þau eru flókin, lítt
skilgreind [ill-structured], margslungin [multidisciplinary]
og þýðingarmikil [meaningful]. Þau skuldbinda nemendur til að
beita þeirri námsaðferð sem við á til að leysa vandamálið. Þau
krefjast hæfileika til að skilgreina, samþætta og meta. Þau eru
ögrandi, illskiljanleg og koma á óvart. Nemendur sem og kennarar láta
sig það varða að skilja þau og finna svör við þeim.
Dæmi
um fjölmörg vandamál af þessu tagi er að finna undir liðnum Vandamál
- sýnishorn
hér á kennarasíðunni
þar
á meðal
áhugavert viðfangsefni samið af Deborah E. Allen,
líffræðikennara við University of Delaware: When
Twins Marry Twins
Sjá ennfremur umfjöllun undir liðnum
Vandamál
________
Heimildir:
Wilkerson, LuAnn og Gijselears, Wim H. (1996). Bringing Problem-Based
Learning to Higher Education: Theory and Practice. New Directions for
Teaching and Learning (Greinasafn). San Fransisco. Jossey-Bass Inc.,
Publishers.
Upp
© 2000
Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært:
03.05.2005