Í
lausnaleitarnámi gilda aðrar reglur um námsmat en í hefðbundnu námi.
Hvergi er slakað á gæðakröfum en þar sem
námið er byggt upp á annan hátt en almennt gerist þá þarf að haga
námsmati á annan hátt en vanalega og úrvinnsla og framkvæmd þurfa að
haldast í hendur. Í stað þess að vera eingöngu með einstaklingsmat
þá er hægt að nota ýmsar aðrar leiðir til að meta kunnáttu
nemenda og fer það eftir eðli námskeiðsins hvaða aðferð eða aðferðir henta best hverju sinni (Bjørke,
2000).
Hér
á eftir verður fjallað um nokkrar námsmatsaðferðir sem þykja henta
í lausnaleitarnámi sem allar falla undir svokallað heildrænt námsmat
eða Authentic Assessment:
Kjarninn
í Authentic Assessment er að matið á að byggjast sem mest á eðlilegu,
góðu skólastarfi þar sem nemendur fást við krefjandi og helst sem
raunverulegust viðfangsefni. Þessi viðfangsefni eiga sem mest að
reyna á að nemendur beiti þekkingu sinni, skilningi, innsæi,
hugmyndaflugi og leikni. Áhersla er lögð á virka þátttöku
nemenda, sjálfsmat og jafningjamat (Cole o.fl. 1995 tilvitnað
eftir Ingvari Sigurgeirssyni 1998).
Sjálfsmat
Eitt af markmiðum
lausnaleitarnáms er að gera nemendur ábyrga fyrir námi sínu, þar af
leiðandi þarf mat á þeirra eigin námi að vera í fyrirrúmi. Í hópvinnu
fámennra hópa kemur slíkt mat að sjálfu sér. Í upphafi verks setja
hóparnir sér námsmarkmið og þegar kemur að því að gera
hópstarfið upp þá er metið hvort þeim hafi verið náð. Í lok
hvers hópfundar er algengt að hver hópmeðlimur segi nokkur orð um
eigin vinnu og meti t.d.:
-
eigin
getu til að leysa það vandamál sem verið er að fjalla um hverju
sinni
-
eigin
námsaðferðir og námsárangur
-
eigið
framlag og virkni í hópstarfinu
-
eigin
þekkingu
Á þennan
hátt öðlast nemendur þjálfun í sjálfsmati og að bera sig og vinnu
sína saman við samnemendur.
Jafningjamat
Auk sjálfsmats er sífellt meiri
áhersla lögð á að nemendur meti vinnu samnemenda sinna með því að gefa
hver öðrum endurgjöf, t.d. fyrir skrifleg verkefni eða námsárangur. Þetta
hefur í för með sér gagnrýni og umræður þar sem matið er rökstutt.
Mat af þessu tagi hefur tvær gagnlegar hliðar, þ.e. sá sem fyrir gagnrýninni
verður getur bætt verkefnið og hinn fær þjálfun í vinnubrögðum af þessu
tagi. Sjá gögn
um jafningjamat
á heimasíðu Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors
við KHÍ.
Dagbókarskrif
eða blogg [Leiðarbók] - mat á námsframvindu
Kerfisbundin dagbókarskrif - blogg eins og það er kallað á Netinu getur verið gott hjálpartæki
bæði til að fylgjast með og fá yfirsýn yfir eigið nám og
námsframvindu og þar með fá tækifæri til að meta eigin framfarir.
Á mörgum námskeiðum eru dagbókar- eða bloggskrif hluti af
verkefnaskilum og ætlast er til að nemendur skili þeim af sér með jöfnu
millibili. Á þann hátt geta kennarar metið námsframvindu og
námsframför nemenda sinna. Í skrifum tjá nemendur sig oft á annan
hátt en endranær og kemur þá ýmislegt í ljós sem ekki hefur komið
fram áður (Dysthe 1995 tilvitnað af Bjørke,
2000).
Mat
á hópstarfi og hópúrlausnum
Yfirleitt er mat á hópstarfi
hluti af mati á hópúrlausninni sjálfri. Gera má ráð fyrir að það
hafi mjög mótandi áhrif á niðurstöður hópsins hvernig hópvinnan
hefur gengið fyrir sig á meðan unnið var að verkefninu. Áður en
kemur að því að meta hópúrlausnina er vert að athuga eftirfarandi
atriði hópstarfsins fyrst:
-
Hópstemning:
Einkennist hún af gagnkvæmu trausti, þolinmæði, léttu
andrúmslofti, samvinnu, samkennd, hrósi, góðri hlustun og
samvinnuþýðni eða einkennist hún af ósamvinnuþýðni, höfnun,
formsatriðum, samkeppni, mótþróa, niðurrifi, vörn eða tregðu á
að skipta um skoðun?
-
Hópumræður:
Einkennast þær af víðsýni, tillögum til að leiða mál til
lykta, skoðanaskiptum á eigin meiningum, eru þær rökræddar,
metnar, staðfestar, eða er leitað svara, upplýsinga, upprifjunar,
skýringa, álits, stöðu, mats, sundurgreiningar, staðreynda?
-
Virkni:
Taka allir í hópnum þátt? Ef ekki, er reynt að fá alla
með?
-
Samantekt:
Er samantektin í takt við umræðurnar, koma sjónarmið allra
fram, eru skil á milli aðalatriða og aukaatriða, eru tímalengd og
tímamörk viðeigandi?
-
Spurningar:
Eru spurningar einfaldar eða margþættar, umhugsunarverðar,
myndast þögn eftir að spurningar eru lagðar fram, svarar
spyrjandinn sjálfur, eru margar spurningar um það sama?
Góð
leið til þess að vera meðvitaður um hvað skapi gott vinnuumhverfi og
hvernig hægt sé að hafa áhrif á það, er að búa til lista yfir
þau atriði sem skapa gott vinnuumhverfi eða skrá niður það sem
fram fer í hópnum. Slíka umræðu er hægt að hafa almenna og benda á
að afraksturinn verði í samræmi við þá stemningu sem skapast í
hópnum.
Mat
á námsárangri
Svo virðist sem erfitt sé að finna
góða leið til að meta námsárangur í lausnaleitarnámi og
hefðbundin próf eru jafnvel stundum talin vera mótsögn við þær hugmyndir sem lausnaleitarnám
byggir á. Sumir halda því fram að námið sé þess eðlis að ekki
þurfi kannanir né próf í lokin þar sem samskipti nemenda og kennara
séu það náin að kennari viti nákvæmlega hvar nemendur standa í
faginu. Það er þó áreiðanlega enn nokkuð langt í land með að þau sjónarmið
nái fram að ganga og eru menntastofnanir að prófa sig áfram með
hinar ýmsu aðferðir við að meta námsárangur í lausnaleitarnámi.
Einstakar
stofnanir hafa leyst málið þannig að nemendahópar hafa kynnt
hópúrlausnir sínar hver fyrir öðrum. Á þann hátt öðlast þeir
jafnframt þjálfun í að miðla faglegu efni og fylgja úrlausnum sínum
eftir og þar með sýna hvað þeir hafa lært og síðast en ekki síst
taka þeir þátt í faglegum umræðum um innihaldið. Í
læknanámi Háskólans í Limburg í Hollandi eru notaðar margar
ólíkar aðferðir til að meta námsárangur sem áhugavert er að kynna
sér en stutta lýsingu á þeim er að finna í bók Bjørke (2000)
á bls. 142-143.
Eins og
fram kemur í grein Ingvars Sigurgeirssonar (1998) um námsmat sem aðgengileg
er á Netinu (sjá heimildir) er hægt að framkvæma vettvangsathuganir á
kerfisbundinn hátt, t.d. með hjálp gátlista, matslista og dagbókarfærslna
og flokkast þær þá undir heildrænt námsmat. Í greininni er góð lýsing
á framkvæmdinni ásamt sýnishornum af gát- og matslistum. Sjá ennfremur
hugmyndabanka
Ingvars með ýmsum hjálpargögnum til að nota við mat á skólastarfi og námsmat.
Skrifleg
heimapróf
Við Háskólann í Oslo hafa
verið gerðar tilraunir með heimapróf í framhaldsnámi í
heilsugæslu- og félagsvísindagreinum. Með það í huga að tengja
lokamat eins mikið og mögulegt er við námsefnið og það námsfyrirkomulag
[lausnaleitarnám] sem nemendur styðjast við í námi sínu eru lokaverkefnin lögð fyrir
í formi vettvangslýsinga. Nemendur greina verkefnin fyrst í hópum og
vinna síðan hver fyrir sig skriflega ritgerð eða skýrslu um málið.
Dæmi:
Sýn á
mannkynið
Karí, sem er geðhjúkrunarfræðingur lýsir yfir: „Ég
hef húmanísktískt (mannvinsamlegt) viðhorf gagnvart fólki”.
„Hvað
felur það í sér?" spyr 12 ára gömul frænka hennar. „Það
þýðir að mín skoðun og lífssýn er sú að hver einstaklingur er
frjáls og einstakur og hefur rétt til að ráða yfir sér sjálfur”
svarar Karí. „Ó”,
segir Berit undrandi, „en
af hverju segir mamma þá að það sért þú sem ákvarðir hverju
sjúklingarnir eigi að klæðast hverju sinni?”
Nemendur
höfðu einn mánuð til að vinna lokaverkefnið og unnu í fjögurra
manna hópum og skiptu með sér fjórum ólíkum hlutverkum sem tóku á
ólíkum hliðum þess tilviks sem um var að ræða. Hópvinnan fór fram
með hefðbundnu sniði í fyrstu með því að skilgreina og
sundurgreina málið. Síðan skiptu nemendur verkefnunum á milli sín og
hver fór heim til að skrifa sína ritgerð. Þeir fengu leyfi til að
leggja drög (uppköst) fyrir hver annan til að fá umsögn áður en
þeir skiluðu inn svarinu. Með þessu móti var hægt að láta alla nemendurna
komast í snertingu við fleiri en eitt verkefni, þemu - þannig
að prófið virkaði jafnframt fræðandi. Geta má þess hér að
heimapróf eru mikið notuð við Kennaraháskóla Íslands þó fáir
kennarar þar séu farnir að beita lausnaleitarnámi í kennslu enn sem
komið er.
Sýnismöppur
Einn þeirra valkosta sem
notaðir eru í stað lokaprófa eru svokallaðar sýnismöppur
(portfolio assessment). Það felur í sér að nemendur safna saman allri
skriflegri vinnu, glósum, skýrslum, skilaboðum o.s.frv. og velja
síðan ákveðinn hluta þess til að leggja fram (í möppu) í lok
námsins. Því til viðbótar er oft farið fram á að nemendur láti
skriflega hugleiðingu fylgja með þar sem þeir fylgja vali sínu eftir og
tilgreina hvers vegna hann eða hún hafi valið einmitt þessi plögg í
því skyni að fá mat á sterkum og veikum hliðum þeirra og um leið
á eigin
frammistöðu.
Með því
að hugsa matið á þennan hátt færist ábyrgðin að nokkru leyti yfir
á nemendur. Það eru nemendurnir sjálfir sem velja það sem þeim
finnst nógu gott til að leggja fram fyrir aðra og sem að þeirra mati
er nógu frambærilegt til að sýna fram á hvað þeir hafi lært.
Sýnismöppuvinnan samanstendur því af eftirfarandi þáttum:
Sjá
ennfremur greinargóða lýsingu á sýnismöppum (portfolios) og
ferlismöppum (processfolios) í áðurnefndri grein Ingvars
Sigurgeirssonar (1998) um námsmat.
Námskeiðsmat
Að lokum skal bent á að þó
mikilvægt sé að meta námsárangur nemenda þá er ekki síður
mikilvægt að meta námsfyrirkomulagið reglulega. Í því sambandi má
benda á áhugaverða leið sem farin er í Háskólanum í Delaware í
Bandaríkjunum (Duch o.fl., 2001). Þar leggja kennarar nafnlausa könnun
fyrir nemendur sína þrisvar á misseri til að fullvissa sig um að
reynsla þeirra af lausnaleitarnámi sé jákvæð.
Hér eru
dæmi um spurningar sem þeir eru beðnir að svara: Fyrstu spurningunni
á að svara með því að draga hring utanum tölurnar á skalanum 1
[mjög ánægð/ur] - 5 [mjög óánægð/ur] öllum hinum er svarað með
orðum:
-
Hversu
ánægð/ur ertu með námskeiðið það sem af er þessu misseri?
-
Hvað
auðveldar þér að læra á þessu námskeiði?
-
Hvað
hindrar þig í að læra á þessu námskeiði?
-
Hvað
getur þú gert til að námið sé árangursríkara fyrir þig?
-
Hvað
getur kennarinn gert til að gera námskeiðið árangursríkara fyrir
þig?
-
Hvaða
spurning/atriði er enn óljóst í huga þínum?
Þegar
kennarinn hefur fengið könnunina aftur í hendur er ætlast til að hann
bregðist við tilmælum nemenda á einhvern hátt annað hvort með því
að útskýra fyrir þeim hvernig hann hyggist breyta skipulagi
námskeiðsins eða útskýra hvers vegna hann muni ekki breyta
skipulaginu.
En álit
nemenda á námskeiðinu er ekki það eina sem skiptir máli. Kennarinn
á líka að meta hvað gekk vel á námskeiðinu og hvað megi bæta.
Eftirfarandi spurningar geta verið hjálplegar í því sambandi:
-
Þjónuðu
viðfangsefnin tilætluðu hlutverki?
-
Hvaða
viðfangsefni gengu vel, og hvaða viðfangsefni þarf að betrumbæta?
-
Voru viðfangsefnin við hæfi (þ.e. nógu flókin) fyrir hópana til að
leysa?
-
Sýndu
nemendur fram á að þeir hefðu öðlast dýpri skilning á
námsefninu?
-
Var
námskeiðið byggt upp í samræmi við fjölda nemenda?
-
Var
kennslan sjálf innan hæfilegra marka? Var námskeiðið nógu
nemendamiðað?
-
Hvað
ætti að skipuleggja öðruvísi næst? Hvað ætti að vera
óbreytt?
-
Gekk
hópstarfið vel? Ef ekki, hverju er hægt að breyta?
______
Heimildir:
Bjørke, Gerd (2000). Problembasert læring - Ei innføring for profesjonsutdanningane.
Universitetsforlaget. Oslo.
Duch, Barbara J., Groh, Susan E. og Allen, Deborah E. (2001). The
Power of Problem-Based Lerning. Sterling, VA: Stylus Publishing.
Ingvar Sigurgeirsson (1998). Námsmat
byggt á traustum heimildum
í Steinar í vörðu til
heiðurs Þuríði J. Kristjánsdóttur sjötugri. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla
Íslands. [11.02.03]
Ingvar Sigurgeirsson (2000).
Hugmyndabanki
um mat á skólastarfi og námsmat.
[11.02.03]
Upp
© 2000
Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært:
03.05.2005
|