McMaster
líkanið
Þó margar aðferðir
hafi verið þróaðar í útfærslu lausnaleitarnáms þá reynist upprunalega
fyrirmyndin frá McMaster yfirleitt best til viðmiðunar að sögn
Howard
S. Barrows
eins ötulasta talsmanns lausnaleitarnáms. Síðan er hægt að breyta út frá
henni til að mæta þeim námskröfum sem felast í öðrum fræðigreinum:
Námið er nemendamiðað
Nemendur bera ábyrgð á sínu eigin námi undir handleiðslu leiðbeinanda. Það gera þeir með því að afmarka það sem þeir þurfa að kynna sér
til að skilja betur eðli vandamálsins sem til skoðunar er hverju sinni svo þeir nái betri tökum á lausn þess. Þeir
þurfa að ákveða hvar þeir eiga að nálgast upplýsingar, þ.e. í bókum, tímaritum, hjá
kennurum, á Netinu eða á vettvangi.
Námið fer fram í fámennum
nemendahópum
Í læknanámi hafa hóparnir yfirleitt verið fimm til átta manna. Í lok hvers
námskeiðs er stúdentum raðað upp aftur á tilviljanakenndan hátt og auk þess fá þeir
nýjan leiðbeinanda. Með þessari ráðstöfun fá þeir æfingu í að vinna náið
og á árangursríkan hátt með margs konar fólki sem er mjög gott veganesti út í
lífið, ekki síst fyrir lækna.
Kennarar eru hjálparhellur og
leiðbeinendur
Hjá McMaster voru þessir aðilar kallaðir leiðbeinendur. Oft á tíðum
hafði þessi staða neikvæða merkingu í fyrstu. Leiðbeinandinn sá ekki um að
upplýsa stúdenta né láta þá vita hvort þeir væru á réttri leið. Hann benti
þeim ekki heldur á hvað þeir ættu að kynna sér eða lesa enda mátti hann ekki vera
sérfræðingur á því sviði sem vandamálið tengdist en þá var talin hætta á að
hann yrði of leiðandi. Nú hafa menn aftur á móti komist að raun um að bestu
leiðbeinendurnir eru þeir sem eru sérfræðingar á viðkomandi sviði.
Auk þess
þurfa þeir að vera vel að sér um aðferðina.
Vandamálin móta áherslur og örvun
sem felast í náminu
Þegar PBL er notað í tengslum við lyf, sjúklinga eða samfélagsleg
heilbrigðisvandamál
þá er viðfangsefnið lagt fyrir stúdenta, t.d. í formi skýrslu, hermilíkans
[í tölvu],
myndbands eða sjúklingurinn sjálfur mætir á staðinn. Reynt er að hafa allt sem
líkast því sem gerist í raunveruleikanum þannig að nemendur geti tekist á við og
leyst málið við raunhæfar aðstæður.
Framsetning vandamáls leggur grunninn
að þeirri færni sem verið er að byggja upp í greiningu sjúkdóma
Til að svo megi verða þá þarf að móta lýsingu vandamálsins á sama hátt og
gerist í raunveruleikanum þannig að nemendur séu þeir einu sem yfirheyra og skoða
sjúklinginn. Auk þess sjá þeir um að panta rannsóknir á rannsóknarstofum í beinu
samhengi við sjúkdómsgreininguna. Nemendur eiga síðan að fá allar niðurstöður
rannsókna jafnóðum og þær berast um leið og þeir vinna að lausn
vandamálsins.
Nýrra upplýsinga er aflað með
sjálfstýrðu námi
Í beinu framhaldi af ofangreindu ferli er ætlast til þess af stúdentum að þeir læri
af þeirri reynslu sem þeir öðlast við að glíma við vandamálin á vettvangi með
því að afla sér sjálfir þeirra upplýsinga sem til þarf. Á meðan á þessu
sjálfstýrða námi stendur vinna nemendur saman með því að ræða
málin; bera sig
saman; fá yfirsýn yfir málið og að lokum meta það sem þeir hafa lært.
Það sem skildi McMaster aðferðina mest
frá fyrri kennsluaðferðum í læknisfræði var að nú voru
fyrirlestrarsalirnir orðnir að umræðuvettvangi þar sem allir tóku
virkan þátt í náminu. Kennslustundirnar breyttust frá því að
einblínt var á staðreyndir sem kennarar miðluðu í fyrirlestraformi
yfir í öflun upplýsinga sem skiptu máli til að leysa úr vanda
viðkomandi sjúklinga. Kennarar urðu uppspretta fróðleiks til að leysa
vandamál líðandi stundar í stað þess að miðla staðreyndum sem
aðeins komu að gagni í prófum en síður eða alls ekki þegar út á
starfsvettvanginn var komið (Barrows, 1996).
Kennarar kynna nemendum röð
vandamála og nemendur vinna síðan í litlum hópum við að skilgreina
þau, rannsaka, ræða um þau, útskýra og móta hugsanlega skýringu,
lausn eða ráðleggingu.
Það skiptir sköpum þegar
lausnaleitarnám er annars vegar að nemendur búi ekki fyrir að nægri
þekkingu til að leysa málið.
Í upphafi setja nemendur fram
spurningar sem þarf að svara. Þessar spurningar eru lykillinn að þeirri þekkingu og
reynslu sem nemendur öðlast við lausn vandamálsins.
Hér er stutt kynning á því hvernig vinnulagi
í lausnaleitarnámi [PBL] er háttað. Tekið skal fram að hér er um einfalt
líkan að ræða sem getur haft endurtekningar í för með sér. Liðir
2 til 5 hafa samverkandi áhrif eftir því sem fleiri upplýsingar koma
fram sem útskýra vandamálið. Liður 6 getur komið upp oftar en einu
sinni - sérstaklega þegar kennarar leggja áherslu á að farið sé
út fyrir "fyrstu drög":
1. Kynning á vandamálinu
Torleyst vandamál eða viðfangsefni kynnt fyrir nemendum. Nemendur mega ekki búa yfir
nægri þekkingu til að geta leyst málið heldur þurfa þeir að afla sér
nauðsynlegra upplýsinga til að leysa það. Í því felst að öðlast nýjan
skilning, læra ný lögmál eða að ná tiltekinni leikni í einhverju sem tengist
vandamálinu.
2. Búinn til listi yfir það sem
vitað er fyrir
Nemendur búa til lista yfir það sem þeir vita um viðfangsefnið.
Þetta má gjarnan gera í hópum. Þessar upplýsingar eru geymdar
undir fyrirsögninni: Hvað vitum
við? Hér geta verið gögn sem fylgt hafa kynningunni
sem og upplýsingar byggðar á fyrri þekkingu.
3. Skýrsla um vandamálið útbúin
jafnóðum
Skýrsla um vandamálið kemur frá nemendum. Hún inniheldur lýsingu á því hvað þeir
vita. Uppfæra þarf skýrsluna jafnóðum og nýjar og gagnlegar upplýsingar berast í
málinu.
4. Búinn til listi yfir það sem
þarf að skoða
Þegar nemendur hafa fengið kynningu á vandamálinu þurfa þeir að
leita upplýsinga til að fylla í eyðurnar. Þessar upplýsingar eru
geymdar undir fyrirsögninni: Hvað þurfum við að vita?
Þessar spurningar geta leitt til leitar á Netinu, á bókasafni eða
á öðrum stöðum.
5. Búinn til listi yfir hugsanlegar
aðgerðir, valkosti, úrlausnir eða kenningar
Undir fyrirsögninni Hvað eigum við að
gera?
búa nemendur til lista yfir hvað beri að framkvæma (t.d. að spyrja sérfræðing) og
setja fram og prófa hugsanlega kenningu.
6. Kynning á
úrlausninni og þeim
gögnum sem styðja hana
Í lokin getur kennari farið
fram á það að nemendur kynni munnlega eða skriflega uppgötvanir
sínar, niðurstöður eða ráðleggingar. Sú skýrsla á að
innihalda lýsingu á vandamálinu, spurningar, gagnasafn, skilgreiningu
á gögnum, og röksemdir fyrir þeim lausnum eða ráðleggingum sem
byggjast á úrlausn þeirra gagna sem safnað hefur verið.
Nemendur eru hvattir til að deila
niðurstöðum sínum á Netinu eða í tölvupósti með kennurum og
nemendum í öðrum skólum á sama svæði, öllu landinu eða annars
staðar í heiminum. Þess er vænst að nemendur vandi sig betur við lausn og frágang verkefna þurfi þeir
að sýna nemendum í öðrum skólum afraksturinn (Stepien, Gallagher
og Workman, 1993).
________
Heimildir:
Barrows, Howard S. (1996).
Problem-Based Learning
and Beyond: A Brief Overview. Í Wilkerson, L.
og Gijselears, W.H. (ritstj.). Bringing Problem-Based Learning to Higher
Education: Theory and
Practice. New Directions for Teaching and Learning. San
Fransisco. Jossey-Bass.
Finkle, S.L., og Torp, L.L. (1995). Introductory
Documents. The Center for PBL, Illinois Math and Science Academy.
NASA Classroom of the Future Program - Exploring
the Environment. ETE Teacher Pages - Problem-Based Learning.
Stepien, W., Gallagher, S., og Workman, D. (1993). Problem-Based
Learning for Traditional and Interdisciplinary Classrooms. Journal
for the Education of the Gifted, 4, 338-345.
Upp
© 2000
Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært:
31.03.2012
|