Þú ert hér






















Þegar námskrá fyrir lausnaleitarnám er búin til þá koma í ljós bæði kostir og annmarkar eins og oft vill verða þegar skipt er yfir í aðrar kennsluaðferðir. Bob Hoffmann og samstarfsfólk hans við San Diego State University (1996) benda á að huga verði að eftirfarandi sex atriðum:

Námsárangur

Þó fáir skólamenn efist um gildi lausnaleitarnáms hvað varðar þjálfun í rökhugsun og hópstarfi þá liggur ljóst fyrir að það hefur sín takmörk eins og aðrar kennsluaðferðir sem fyrst og fremst orsakast af því að í lausnaleitarnámi er einblínt á eitt vandamál í einu. Þar af leiðandi er erfitt að komast yfir jafnmikið efni og í hefðbundnu námi og kjósa því margir að halda sig við það hefðbundna af þeim sökum. Á þetta sérstaklega við þegar hefðbundið námsmat er annars vegar.

Krafa um tíma

Þó nemendur kjósi almennt lausnaleitarnám og hæfileikar þeirra til að leysa raunveruleg vandamál virðist eflast miðað við hefðbundið nám, hafa kennarar þó ekki verið einhuga um að styðja notkun þess. Aðalorsökin er sú að kennarar þurfa að verja meiri tíma til að undirbúa námsgögn. Ennfremur eru þeir ekki sáttir við að þurfa að draga saman efnið vegna þess að lausnaleitarnám tekur lengri tíma en hefðbundið nám.

Hlutverk nemanda

Ófyrirséð vandamál er sú hugmynd sem nemendur hafa um lausnaleitarnám. Flestir nemendur hafa í gegnum árin staðið í þeirri meiningu að kennarar væru aðaluppspretta fróðleiks. Vegna þessarar afstöðu til sérfræðikunnáttu kennarans og hins hefðbundna utanbókarlærdóms virðast margir nemendur hafa tapað þeim eiginleika að 'velta hlutunum fyrir sér á einfaldan hátt'. Þetta er sérstaklega áberandi hjá nemendum á fyrsta ári í háskóla sem eiga oft í erfiðleikum með sjálfstýrt nám.

Hlutverk kennara

Kennarar sem kenna eftir námskrám sem byggja á lausnaleitarnámi verða að víkja frá hefðbundnum kennsluaðferðum sem byggja á fyrirlestrum, umræðum og fyrirmælum um utanbókarlærdóm - með próf í huga. Í lausnaleitarnámi er kennarinn hjálparhella frekar en fræðari. Í þessu felst að kennarar beina athygli sinni að því að meta röksemdarfærslu og skoðanir nemenda, gefa þeim vísbendingar þegar þeir eru á villigötum, útvega þeim úrræði til rannsókna og yfirleitt að halda þeim við efnið. Vegna þess hve framandi þetta hlutverk er sumum kennurum geta þeir átt erfitt með að brjótast út úr gamalli hefð.

Viðeigandi vandamál

Mörgum þykir það erfiðasta við lausnaleitarnám að búa til viðeigandi spurningar (stýrandi). Ef vandamálið sem nemendur glíma við er ekki innihaldsríkt og innifelur ekki ákveðið markmið þá er mjög hætt við því að nemendur leiðist út af sporinu og sleppi því að skoða nánar mikilvægar upplýsingar sem tengjast vandamálinu.

Sjá dæmi um viðfangsefni undir liðnum Vandmál - sýnishorn hér á kennarasíðunni.

Námsmat

Lausnaleitarnám er ólíkt hefðbundinni kennslu á margan hátt, þess vegna getur verið betra að meta kunnáttu nemenda á annan hátt en tíðkast í hefðbundnu námi. Um er að ræða matsaðferðir eins og rannsóknarskýrslur, hagnýtar rannsóknir, jafningjamat, sjálfsmat, leiðbeinendamat, munnlega kynningu og skýrsluskrif. 

Sjá nánari umfjöllun um þetta efni undir liðnum Um námsmat hér á kennarasíðunni.

_______
Heimildir:
Lucas, G. og Hoffman, B. með aðstoð Dodge, B. (aðalhvatamanns WebQuest). San Diego State University (1996). Problem-Based Learning vefleiðangur - sjöundi kafli: Disadvantages of Problem Based Learning
[13.01.03]


Upp

© 2000 Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært: 03.05.2005