Nánar upp uppruna PBL
Þú ert hér









Lausnaleitarnám er sú þekking og reynsla sem fæst með því að öðlast skilning á vandamáli um leið og unnið er að lausn þess. Námsferlið hefst með því að „horfst er í augu” við vandamálið (Barrows og Tamblyn, 1980:2).

Það var á sjöunda áratugnum sem kennarar læknadeilda fóru í vaxandi mæli að verða þess varir að þeir þyrftu að breyta kennsluaðferðum sínum til að búa væntanlega lækna betur undir þau sérfræðistörf sem biðu þeirra að námi loknu. (Barrows og Tamblyn, 1980). Gagnrýndar voru þær hefðbundnu aðferðir sem tíðkast höfðu í háskólakennslu og beindust að því að hamra á staðreyndum sem leiddu til utanbókarlærdóms. Ennfremur þótti námið samhengislaust og lítið gert til að þjálfa nemendur í að tileinka sér bestu aðferðir til símenntunar. Bent var á að störf sérfræðinga krefðust hæfileika í lausn vandamála, þar á meðal hæfileika til að afla nauðsynlegra gagna og vinna úr þeim auk hæfileika til að setja fram tilgátur og prófa þær með því að afla viðbótargagna. 

Þessi umræða varð meðal annars kveikjan að því að nýstofnuð læknadeild McMaster háskóla í Ontario í Kanada skipulagði kennsluna á grundvelli þeirrar aðferðar sem síðan hefur verið kennd við Problem-Based Learning eða lausnaleitarnám. Í því fólst m.a. að stúdentar kynntust strax þeim hefðbundnu vísindalegu aðferðum sem tíðkast við greiningu og meðferð sjúkdóma. Þeir unnu í litlum hópum og fengu raunveruleg vandamál til að glíma við. Hver hópur var með sinn leiðbeinanda sem hafði það hlutverk með höndum að hvetja nemendur til dáða, aðstoða þá við að finna viðeigandi upplýsingar og umfram allt að taka þátt í náminu á jafnréttisgrundvelli án þess að leysa málin fyrir þá. 

Á þessum rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru síðan McMaster háskólinn tók þessa kennsluaðferð í gagnið hafa kennarar við fjölmarga læknaháskóla um allan heim tileinkað sér hana. Nú síðustu ár hafa kennarar í mörgum öðrum háskólagreinum bæst í hópinn og áhugi á aðferðinni virðist mjög vera að aukast auk þess sem hún er að skjóta rótum á öðrum skólastigum (Wilkerson og Gijselaers, 1996).

Sjá ennfremur umfjöllun undir liðnum Framkvæmd

_________
Heimildir:
Wilkerson LuAnn og Gijselears, Wim H. (1996). Bringing Problem-Based Learning to Higher Education: Theory and Practice. New Directions for Teaching and Learning (Greinasafn). San Fransisco. Jossey-Bass.


Upp

© 2000 Þórunn Óskarsdóttir, M.Ed. Allur réttur áskilinn. Vefstjóri
Síðast uppfært: 01.03.2011