Hér er fylgt úr hlaði upplýsingasetri um náms-
og kennsluaðferðina lausnaleitarnám sem hýst er á vefslóðinni: www.pbl.is.
Annars vegar er upplýsingasetrinu ætlað að veita almennar upplýsingar
um lausnaleitarnám og hins vegar að vera til stuðnings þeim kennurum sem
eru að búa sig undir eða eru þegar farnir að nota lausnaleitarnám í kennslu.
Þegar upp kom sú hugmynd að setja upplýsingavef
um lausnaleitarnám á Netið var fyrst kannað hvort sambærilegur íslenskur
vefur væri fyrir hendi og þegar kom í ljós að svo var ekki var hafist
handa. Fyrstu drögin birtust á Netinu í lok ársins 2000, eins og áður
hefur komið fram, og þá sem lokaverkefni á námskeiðinu Nám og kennsla
um aldahvörf við framhaldsdeild KHÍ. Fljótlega kom í ljós að vefurinn
nýttist kennurum þó á byrjunarstigi væri og varð það meðal annars til
þess að áfram hefur verið unnið að endurbótum á vefnum með það að leiðarljósi
að á einum og sama stað megi finna sem fjölbreyttastar upplýsingar um
lausnaleitarnám, sem nýst gætu nemendum og kennurum.
Áhugi höfundar á notkun tölvu- og upplýsingatækni
í skólastarfi er sá drifkraftur sem liggur að baki verkinu
ásamt þeirri hugsjón að með nýjum og breyttum kennsluháttum verði
nemendur almennt betur í stakk búnir til að takast á við
hið flókna samspil þekkingar og verklags auk stöðugrar
þekkingarleitar – símenntunar –
sem bíður þeirra flestra að loknu námi.
Lausnaleitarnám er aðferð sem ætlað er að virkja
nemendur, vekja þá til umhugsunar, þjálfa þá í að afla
fjölbreyttra upplýsinga, greina þær og meta og draga af
þeim ályktanir. Þá á lausnaleitarnám að fela í sér
markvissa þjálfun í samvinnu. Allt eru þetta afar
þýðingarmikil atriði sem áríðandi er að efla í
menntun hér á landi en markmið upplýsingasetursins er að
stuðla að þessu.
Eins og sjá má af ofansögðu er
það áhugamál höfundar að vekja athygli skólayfirvalda
og sem flestra kennara á lausnaleitarnámi. Eru
þá eftirfarandi markmið og hlutverk framhaldsskóla meðal
annars höfð í huga:
Kennsluaðferðir
þurfa að taka mið af breyttu umhverfi og breyttum
áherslum á hverjum tíma. Góðir kennsluhættir vekja
áhuga nemenda til náms en gera þá ekki að óvirkum
þiggjendum. Kennsluhættir mega ekki vera einhæfir og
samræmi verður að vera á milli þeirra og
skólastefnunnar sem skólinn leitast við að framfylgja.
Sjálfstraust nemenda verður ekki eflt nema með hæfilegri
ögrun. Kynnist þeir ekki ögrun sem felst í samkeppni og
námsaga býr skólinn þá ekki nægilega vel undir kröfur
daglegs lífs og vinnumarkaðarins (Aðalnámskrá
framhaldsskóla, Almennur hluti, 1999:16).
Eftirfarandi
reglur – sem að mati sérfræðinga skapa góðan
vef – hafa verið hafðar að leiðarljósi frá upphafi:
Innihald
þarf
að höfða til markhópsins; skipulag
þarf að vera gott og viðmótið gegnsætt þannig að auðvelt
sé að finna það efni sem á honum er; vefurinn þarf að virka tæknilega
í öllum algengustu vefskoðurum [Browser] og vefurinn á að vera léttur
og fljótur að hlaðast inn (Gunnar
Grímsson, 2002).
Við
hönnun vefsins hefur einnig verið stuðst við góð
ráð Jakob Nielsen (2000) sem oftast er vitnað til í
sambandi við vefhönnun. Má þar nefna einfaldleikann
sem að hans mati er mjög mikils virði - notendur eru yfirleitt
ekki á Netinu til að njóta útsýnisins
heldur beina þeir athyglinni fyrst og fremst að innihaldinu.
Mikilvægt er að gæta þess að hægt sé
að nálgast efnið þó nýjustu tækni
sé ekki fyrir að fara. Í því skyni ráðleggur
Nielsen vefhönnuðum að miða við minnst tveggja
ára gamla vefskoðara [Browsers] og að ekki þurfi
mikla bandvídd til að skoða síðurnar. Auk
þess þarf að gæta þess vel að skipulag
vefsins sé þannig að hægt sé að skoða
hann vandræðalaust á litlum skjám og miðast
vefurinn við lágmark 800 x 600 punkta [pixels] sem þykir
henta best nú til dags. Leitast er við að hafa orðalag
eins lipurt og framast er unnt og forðast torskilda fræðilega
umfjöllun þannig að sem flestir geti nýtt sér
það sem fram kemur á vefsetrinu.
Hvar er
ég?
Við uppsetningu og frágang upplýsingasetursins hefur þess verið gætt
að þeim sem heimsækja það sé ávallt ljóst
hvar þeir eru staddir hverju sinni og hvert skal halda. Í því skyni
er leitast við að allir hnappar beri lýsandi nöfn fyrir það efni sem
vísað er á og á hverri síðu er gefið til kynna hvar viðkomandi er staddur
með því að birta hnapp þeirrar síðu sem er í notkun upp á borðanum efst
til vinstri og láta skilaboðin Þú ert hér
birtast fyrir neðan hann. Hnappurinn er sömuleiðis á
sínum hefðbundna stað og er litur hans nú mun
daufari sem á að gefa til kynna að síðan sem
hann stendur fyrir sé í notkun.
Hvar hef
ég verið?
Gefið
er til kynna á hefðbundinn hátt hvaða tenglar
hafa verið skoðaðir á hverri síðu fyrir
sig, þ.e. tenglar sem eru bláir í upphafi verða
fjólubláir þegar búið er að skoða
þá. Aftur á móti kemur ekki fram hvaða
síður notandi er búinn að skoða og hvaða
ekki. Verður væntanlega ráðin bót á
því þegar vefurinn verður uppfærður
sem gagnagrunnsvefur.
Hvert get
ég farið?
Forsíðan
eða heimasíðan eins og hún er oftast nefnd er
frábrugðin öðrum síðum á vefsetrinu.
Á henni eru hnappar sem vísa á allar undirsíðurnar.
Skiptar skoðanir eru um þessa ráðstöfun en
samkvæmt Nielsen (2000:166) þá er heimasíðan
'flaggskip' vefsetursins og á hún þess vegna að
vera sett upp á annan hátt en hinar síðurnar
þó hún eigi að sjálfsögðu að
vera í sama stíl og þær. Meginmarkmið
heimasíðunnar er að svara spurningunum: Hvar er ég?
og Hvað fer fram á þessu vefsetri? Það
á að vera augljóst strax í upphafi og hefur
verið leitast við að hafa það þannig á
forsíðu vefsetursins þar sem hnappar með lýsandi
nöfnum blasa strax við sjónum og stuttur og hnitmiðaður
texti gefur til kynna markmiðið með uppsetningu vefsetursins
og hvað þar sé að finna.
Hönnun
og viðmót vefsetursins er sýnt á þessu veftré:
|