Hér er fylgt úr hlaði upplýsingasetri um náms- og kennsluaðferðina lausnaleitarnám sem hýst er á vefslóðinni: www.pbl.is. Annars vegar er upplýsingasetrinu ætlað að veita almennar upplýsingar um lausnaleitarnám og hins vegar að vera til stuðnings þeim kennurum sem eru að búa sig undir eða eru þegar farnir að nota lausnaleitarnám í kennslu. 


Þegar upp kom sú hugmynd að setja upplýsingavef um lausnaleitarnám á Netið var fyrst kannað hvort sambærilegur íslenskur vefur væri fyrir hendi og þegar kom í ljós að svo var ekki var hafist handa. Fyrstu drögin birtust á Netinu í lok ársins 2000, eins og áður hefur komið fram, og þá sem lokaverkefni á námskeiðinu Nám og kennsla um aldahvörf við framhaldsdeild KHÍ. Fljótlega kom í ljós að vefurinn nýttist kennurum þó á byrjunarstigi væri og varð það meðal annars til þess að áfram hefur verið unnið að endurbótum á vefnum með það að leiðarljósi að á einum og sama stað megi finna sem fjölbreyttastar upplýsingar um lausnaleitarnám, sem nýst gætu nemendum og kennurum.

Áhugi höfundar á notkun tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi er sá drifkraftur sem liggur að baki verkinu ásamt þeirri hugsjón að með nýjum og breyttum kennsluháttum verði nemendur almennt betur í stakk búnir til að takast á við hið flókna samspil þekkingar og verklags auk stöðugrar þekkingarleitar símenntunar sem bíður þeirra flestra að loknu námi. Lausnaleitarnám er aðferð sem ætlað er að virkja nemendur, vekja þá til umhugsunar, þjálfa þá í að afla fjölbreyttra upplýsinga, greina þær og meta og draga af þeim ályktanir. Þá á lausnaleitarnám að fela í sér markvissa þjálfun í samvinnu. Allt eru þetta afar þýðingarmikil atriði sem áríðandi er að efla í menntun hér á landi en markmið upplýsingasetursins er að stuðla að þessu.

Eins og sjá má af ofansögðu er það áhugamál höfundar að vekja athygli skólayfirvalda og sem flestra kennara á lausnaleitarnámi. Eru þá eftirfarandi markmið og hlutverk framhaldsskóla meðal annars höfð í huga:

Kennsluaðferðir þurfa að taka mið af breyttu umhverfi og breyttum áherslum á hverjum tíma. Góðir kennsluhættir vekja áhuga nemenda til náms en gera þá ekki að óvirkum þiggjendum. Kennsluhættir mega ekki vera einhæfir og samræmi verður að vera á milli þeirra og skólastefnunnar sem skólinn leitast við að framfylgja. Sjálfstraust nemenda verður ekki eflt nema með hæfilegri ögrun. Kynnist þeir ekki ögrun sem felst í samkeppni og námsaga býr skólinn þá ekki nægilega vel undir kröfur daglegs lífs og vinnumarkaðarins (Aðalnámskrá framhaldsskóla, Almennur hluti, 1999:16).


Eftirfarandi reglur sem að mati sérfræðinga skapa góðan vef hafa verið hafðar að leiðarljósi frá upphafi: Innihald þarf að höfða til markhópsins; skipulag þarf að vera gott og viðmótið gegnsætt þannig að auðvelt sé að finna það efni sem á honum er; vefurinn þarf að virka tæknilega í öllum algengustu vefskoðurum [Browser] og vefurinn á að vera léttur og fljótur að hlaðast inn (Gunnar Grímsson, 2002). 

Við hönnun vefsins hefur einnig verið stuðst við góð ráð Jakob Nielsen (2000) sem oftast er vitnað til í sambandi við vefhönnun. Má þar nefna einfaldleikann sem að hans mati er mjög mikils virði - notendur eru yfirleitt ekki á Netinu til að njóta útsýnisins heldur beina þeir athyglinni fyrst og fremst að innihaldinu. Mikilvægt er að gæta þess að hægt sé að nálgast efnið þó nýjustu tækni sé ekki fyrir að fara. Í því skyni ráðleggur Nielsen vefhönnuðum að miða við minnst tveggja ára gamla vefskoðara [Browsers] og að ekki þurfi mikla bandvídd til að skoða síðurnar. Auk þess þarf að gæta þess vel að skipulag vefsins sé þannig að hægt sé að skoða hann vandræðalaust á litlum skjám og miðast vefurinn við lágmark 800 x 600 punkta [pixels] sem þykir henta best nú til dags. Leitast er við að hafa orðalag eins lipurt og framast er unnt og forðast torskilda fræðilega umfjöllun þannig að sem flestir geti nýtt sér það sem fram kemur á vefsetrinu.

Hvar er ég?
Við uppsetningu og frágang upplýsingasetursins hefur þess verið gætt
að þeim sem heimsækja það sé ávallt ljóst hvar þeir eru staddir hverju sinni og hvert skal halda. Í því skyni er leitast við að allir hnappar beri lýsandi nöfn fyrir það efni sem vísað er á og á hverri síðu er gefið til kynna hvar viðkomandi er staddur með því að birta hnapp þeirrar síðu sem er í notkun upp á borðanum efst til vinstri og láta skilaboðin Þú ert hér birtast fyrir neðan hann. Hnappurinn er sömuleiðis á sínum hefðbundna stað og er litur hans nú mun daufari sem á að gefa til kynna að síðan sem hann stendur fyrir sé í notkun.

Hvar hef ég verið?
Gefið er til kynna á hefðbundinn hátt hvaða tenglar hafa verið skoðaðir á hverri síðu fyrir sig, þ.e. tenglar sem eru bláir í upphafi verða fjólubláir þegar búið er að skoða þá. Aftur á móti kemur ekki fram hvaða síður notandi er búinn að skoða og hvaða ekki. Verður væntanlega ráðin bót á því þegar vefurinn verður uppfærður sem gagnagrunnsvefur.

Hvert get ég farið?
Forsíðan eða heimasíðan eins og hún er oftast nefnd er frábrugðin öðrum síðum á vefsetrinu. Á henni eru hnappar sem vísa á allar undirsíðurnar. Skiptar skoðanir eru um þessa ráðstöfun en samkvæmt Nielsen (2000:166) þá er heimasíðan 'flaggskip' vefsetursins og á hún þess vegna að vera sett upp á annan hátt en hinar síðurnar þó hún eigi að sjálfsögðu að vera í sama stíl og þær. Meginmarkmið heimasíðunnar er að svara spurningunum: Hvar er ég? og Hvað fer fram á þessu vefsetri? Það á að vera augljóst strax í upphafi og hefur verið leitast við að hafa það þannig á forsíðu vefsetursins þar sem hnappar með lýsandi nöfnum blasa strax við sjónum og stuttur og hnitmiðaður texti gefur til kynna markmiðið með uppsetningu vefsetursins og hvað þar sé að finna.

Hönnun og viðmót vefsetursins er sýnt á þessu veftré:

Ef smellt er á myndina er hægt að skoða flæðiritið í fullri stærð.

Vefsetrinu er skipt í níu meginsvæði

Hvað er PBL? | Forsaga | Framkvæmd | Kennarar | Nemendur
Vandamál | Tenglar | Fréttir | Leit

Innihald þeirra er skilgreint í stórum dráttum hér fyrir neðan:

Hvað er PBL?

Almenn lýsing á lausnaleitarnámi, uppruna þess, skipulagningu og framkvæmd (efnið birtist þegar smellt er á viðkomandi hnapp). Þessum upplýsingum er ætlað að gefa sem gleggsta mynd af því hvað hér er á ferðinni:

Kennarar: Þetta svæði er ætlað kennurum sem eru að hefja notkun lausnaleitarnáms í kennslu eða eru þegar farnir til þess. Hér er að finna leiðbeiningar og góð ráð í tengslum við lausnaleitarnám, að mestu byggð á gögnum bandarískra kennara sem hafa áralanga reynslu af notkun lausnaleitarnáms:

  • Svör við algengum spurningum um lausnaleitarnám sem kennarar eru sérstaklega hvattir til að skoða áður en þeir taka lausnaleitarnám í þjónustu sína og á meðan á vinnunni stendur.

  • Stutt lýsing á helstu einkennum lausnaleitarnáms ásamt samantekt á helstu annmörkum sem komið hafa í ljós þegar lausnaleitarnám hefur verið tekið upp.

  • Leiðbeiningar og góð ráð um framsetningu vandamála; hvernig hópstarfi er hrundið af stað; hvernig staðið er að skiptingu í hópa og hvernig nemendum er hjálpað að vinna saman innan hópa. 

  • Kynning á gildi hópstarfs og framvindu þess þar sem m.a. er vísað til kynningarefnis á myndböndum frá Delaware háskóla. 

  • Ábendingar um námsmat í lausnaleitarnámi.

  • Ummæli innlendra og erlendra kennara og nemenda um reynslu þeirra af lausnaleitarnámi.

Nemendur

Nemendur: Þetta svæði er ætlað nemendum í lausnaleitarnámi. Hér geta nemendur [og kennarar] nálgast góð ráð og upplýsingar um það sem að nemendum snýr í lausnaleitarnámi [PBL] sem og öðru námi:

  • Lýsing á því hvernig lausnaleitarnám fer fram.

  • Efni sem beinist að því að nemendur læri að þekkja eigin hugsun [thinking about thinking].

  • Tíu góð ráð til að ná betri árangri í námi og felst í því að læra að læra.

  • Safnsíða með heilræðum og ábendingum um námstækni.

  • Ummæli innlendra og erlendra nemenda um reynslu þeirra af lausnaleitarnámi.

Vandamál

Vandamál: Á þessu svæði er leitast við að gera grein fyrir hlutverki vandamála í lausnaleitarnámi. Lausnaleitarnám snýst um glímu nemenda við raunveruleg úrlausnarefni.

Tenglar

Tenglar: Safnsíða sem vísar á gagnlega upplýsingavefi um lausnaleitarnám um allan heim auk bóka og greina um sama efni. Um er að ræða vefi þar sem hægt er að fá ítarlegar upplýsingar um lausnaleitarnám sem í flestum tilfellum koma að góðu gagni á hvaða skólastigi sem er. Vefslóðunum er raðað í stafrófsröð og fylgir þeim stutt lýsing á innihaldi þeirra. Af þeim aragrúa upplýsinga um lausnaleitarnám sem finna má á Netinu hefur verið leitast við að velja vefsíður sem viðurkenndar eru meðal helstu talsmanna lausnaleitarnáms sem og innan þeirra stofnana sem þegar nota lausnaleitarnám.

Fréttir

Fréttir:  Síða þar sem leitast verður við að birta fréttir um það helsta sem er að gerast í tengslum við lausnaleitarnám.

Leit

Leit: Öflug leitarvél sem getur verið þægilegt að nota innan sem utan upplýsingasetursins. Um er að ræða leitarvél sem leyfilegt er að setja inn á hvaða vef sem er án endurgjalds. Leitarvélin er fyrst og fremst ætluð til nota á upplýsingasetrinu sjálfu þó hægt sé að leita utan þess.

Greinargerð: Gerð er grein fyrir byggingu setursins og fræðilegum forsendum lausnaleitarnáms.


Víða hefur verið leitað fanga við gerð þessa upplýsingaseturs og þess jafnan gætt að allt efni sem á það hefur verið sett ætti rætur að rekja til ábyrgra aðila oft á tíðum frumkvöðla sem skrifað hafa um lausnaleitarnám í bækur og tímarit eða sett upp upplýsingasíður á Netinu á heimasvæði þeirra stofnana sem þeir vinna fyrir nema hvort tveggja sé. Ekki er hægt að benda á neina eina fyrirmynd að þessu upplýsingasetri enda á það sér ekki hliðstæðu í þeirri mynd sem það er sett upp hér svo vitað sé. 

Nokkrar upplýsingaveitur og heimildir eru notaðar oftar en aðrar og eru þessar helstar: Bringing Problem-Based Learning to Higher Education: Theory and Practice (Wilkerson og Gijselaers, 1996); The Power of Problem-Based Learning (Duch, Groh og Allen, 2001); The Internet and Problem-Based Learning (Stepien, Senn, og Stepien, 2000); Problembasert læring (Bjørke, 2001); UD PBL Problem-Based Learning á vef Háskólans í Delaware; SIU Problem-Based Learning Initiative á vef Southern Illiniois háskóla; MD Program á vef McMaster háskóla auk gagna sem dreift var á námskeiðunum tveimur sem höfundur tók þátt í á vegum Háskólans í Delaware og fram fóru í Newark og Baltimore allt birt með góðfúslegu leyfi höfunda.

Margt sýnist hafa áunnist á sviði tölvu- og upplýsingatæknikennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins sem og í tölvuvæðingu kennara. Það sama virðist mega segja um flestar deildir háskóla og háskólakennara. Þó bendir margt til þess að kennsluhættir séu að mestu leyti þeir sömu og áður þrátt fyrir þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa á öllum sviðum, meðal annars með tilkomu Internetsins og Veraldarvefsins. Kennarar á öllum skólastigum eru farnir að nýta tæknina sumir til hins ítrasta  hvort sem um er að ræða undirbúning fyrir kennslu eða framsetningu námsefnis annað hvort á Netinu þar sem nemendur hafa aðgang að því hvar og hvenær sem er eða í kennslustundum með hjálp skjásýninga [glærusýninga] og vefefnis um víða veröld. Það sem er að gerast er að kennarar eru farnir að leggja enn meiri vinnu en áður í kennsluna eða mötunina og framreiða nú námsefnið á silfurfati í stað þess að láta nemendur hafa fyrir náminu sjálfa, t.d. með því að ígrunda og ræða um efnið eða glósa hjá sér það sem fram kemur í tímum. Þessar staðhæfingar byggi ég m.a. af þeirri reynslu sem ég hef af starfi mínu við að leiðbeina kennurum Háskóla Íslands í tölvu- og upplýsingatækni og samstarfi mínu við kennara Fjölbrautaskólans við Ármúla sem og fjölmörgum reynslusögum kennara bæði munnlegum og skriflegum (sjá t.d. Felder, 2001; Guðrún Pétursdóttir, 2003; Lieux, 2001).

Markmiðið með þessu upplýsingasetri er að sporna við þessari þróun með því að leitast við að vekja athygli skólamanna á þessari náms- og kennsluaðferð sem byggir á tölvuvert öðrum forsendum en hefðbundnar aðferðir. Það sem helst skilur á milli er að nemendur þurfa sjálfir að hafa fyrir því að leita þessara sömu upplýsinga og lýst er hér fyrir ofan. Það eru þeir en ekki kennarinn sem framreiða efnið fyrir sjálfa sig og kennarann vonandi á silfurfati að lokum. Það gera þeir með því að fá raunverulegt viðfangsefni [problem] í hendurnar sem þeir þurfa að glíma við í sameiningu og finna viðunandi lausn á. Á þann hátt öðlast nemendur markvissa þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum við upplýsingaöflun, ígrundaðri hugsun, innbyrðis samvinnu og samskiptum út á við sem allt flokkast undir gott veganesti undir áframhaldandi nám og starf í síbreytilegu samfélagi þar sem gildi símenntunar og samvinnu á vinnustað eykst stöðugt.

Ljóst er að vinnu við upplýsingasetur af þessu tagi lýkur seint eða aldrei og er hugmyndin að það verði í stöðugri uppfærslu og þróun þannig að þar sé ávallt að finna eins greinargóðar upplýsingar um lausnaleitarnám og frekast er kostur. Fylgst verður reglulega með því að allir tenglar séu virkir og þeir aftengdir samstundis eða eytt ef þeir koma ekki fljótlega upp aftur. Sérstök áhersla er lögð á þetta enda ber það vott um ófagmannleg vinnubrögð að halda úti upplýsingasetri af þessu tagi með úreltum tenglum.


Upp

© 2003 Þórunn Óskarsdóttir