![]() ![]() |
|
||||||||||||
|
Að læra án þess
að hugsa er tilgangslaust. Meðal
þeirra kennsluaðferða sem hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum
árum er svokallað lausnaleitarnám. Þessi náms- og kennsluaðferð, sem
á ensku kallast Problem-Based Learning, á rætur að rekja til
þróunarstarfs í læknanámi og er í þeirri mynd sem hér verður fjallað
um að mestu byggð á hugmyndum sem raktar eru til
Læknadeildar
McMaster háskóla Fyrstu kynni mín af náms- og kennsluaðferðinni lausnaleitarnámi má
rekja til vorsins 2000 þegar ég var að aðstoða kennara læknadeildar
Háskóla Íslands við uppsetningu kennsluhugbúnaðarins WebCT Möguleikar
á því að tengja
lausnaleitarnám við tölvu- og upplýsingatækni gerðu það að verkum
að ég fékk strax mikinn áhuga á aðferðinni og fór að lesa mér til
um hana. Haustið 2000 sótti ég námskeiðið Nám og kennsla við
aldahvörf við Kennaraháskóla Íslands [KHÍ] í því skyni að kynnast
helstu kenningum og kennsluaðferðum sem efst eru á baugi. Ég ákvað
þar að leggja mig sérstaklega eftir því að kynna mér lausnaleitarnám
og var þá ekki aftur snúið. Allar götur síðan hefur það skipað veigamikinn
sess í framhaldsnámi mínu við KHÍ. Fyrstu drög að upplýsingasetri
um lausnaleitarnám á vefslóðinni: www.pbl.is Sumarið 2001 átti ég þess kost að sækja námskeiðið Integrating
Active Learning with Online Resources Þegar kom að því að velja meistaraprófsverkefni kom ekkert annað til greina en að halda áfram á sömu braut sem var að vinna að áframhaldandi þróun upplýsingaseturs um lausnaleitarnám ásamt því að skrifa kennslufræðilega greinargerð um aðferðina. Í júní 2002 sótti ég síðan fjölmenna alþjóðlega ráðstefnu og námskeið
í Baltimore: PBL
2002 - A Pathway To Better Learning Enska hugtakið Problem-Based Learning sem hér verður kallað lausnaleitarnám er vandþýtt þar sem þýðing á enska orðinu problem virðist almennt bundin við vandamál hvers konar en ekki viðfangsefni eða úrlausnarefni eins og hér er um að ræða. Fjölmörg heiti hafa verið notuð um lausnaleitarnám á íslensku. Má þar, auk lausnaleitarnáms, nefna vandamiðað nám, lausnamiðað nám, nemendavænt verkefnanám, lausn á viðfangsefni, glíma við raunveruleg vandamál og verkefnanám. Strax í upphafi varð hugtakið lausnaleitarnám fyrir valinu og verður það notað bæði á upplýsingasetrinu og í greinargerðinni. Rökin fyrir þessu vali eru þau að um er að ræða tiltölulega stutt og þjált hugtak sem er lýsandi fyrir það nám sem fram fer og samanstendur af skipulegri leit að hugsanlegri lausn eða lausnum á tilteknu vandamáli. Þegar fjallað er um verkefni í lausnaleitarnámi sem oftast eru nefnd problem í enskumælandi löndum verður hugtakið vandamál notað. Er það gert að vandlega íhuguðu máli í þeirri von að smátt og smátt takist að breyta merkingu þess frá því sem nú er að minnsta kosti þegar lausnaleitarnám er annars vegar. Í þessu sambandi er áhugavert að John Dewey fjallar einmitt um þetta í bókinni How We Think en þar segir hann um ígrundaða hugsun og hugtakið 'vandamál' í tengslum við hana:
Þegar
betur er að gáð er það engin furða þó að erfitt hafi reynst að þýða
hugtakið problem á íslensku
þar sem um sama vanda virðist vera að ræða í enskumælandi löndum.
Þetta má t.d. sjá á PBL-upplýsingasetri
Southern Illinois University School of Medicine [SIU]
Meistaraprófsverkefnið byggist annars vegar á upplýsingasetri um lausnaleitarnám og hins vegar á kennslufræðilegri greinargerð um sama efni. Upplýsingasetrinu er fylgt úr hlaði í öðrum kafla greinargerðarinnar undir samnefndum lið þar sem fram kemur að setrið er annars vegar ætlað öllum sem áhuga hafa á að kynna sér þessa kennsluhætti og hins vegar ætlað til stuðnings þeim kennurum og nemendum sem þegar eru farnir að nota lausnaleitarnám. Verkefnið er hugsað sem þróunarverkefni og mun vefsetrið verða í stöðugri uppfærslu. Vonast er til að vefsetrið nýtist sem öflugt hjálpartæki fyrir þá sem hafa hug á að nota lausnaleitarnám í kennslu eða gera það nú þegar Undanfarin 14 ár hef ég stundað kennslu við Fjölbrautaskólann
við Ármúla Með því að velja þetta efni til meistaraprófs geri ég mér vonir um að vekja athygli sem flestra kennara á lausnaleitarnámi, en færa má rök fyrir því að þessi aðferð falli vel að þeim hugmyndum sem fram koma í nýjum aðalnámskrám fyrir grunn- og framhaldsskóla. Sem dæmi má nefna að samkvæmt þeim er hlutverk skólanna meðal annars að þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun sem og að hvetja nemendur til stöðugrar þekkingarleitar, m.a. með því að nýta möguleika upplýsinga- og tölvutækninnar; að skólar skuli stefna að því að nýta upplýsingatækni í öllum námsgreinum og um leið að nýta tæknina sem best í þágu nemenda; að kennsluaðferðir þurfi að taka mið af breyttu umhverfi og breyttum áherslum á hverjum tíma og að góðir kennsluhættir veki áhuga nemenda til náms í stað þess að gera þá að óvirkum þiggjendum (Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti, 1999a:15 og 18 og Aðalnámskrá framhaldsskóla. Almennur hluti, 1999:13, 14 og 16). Til að koma til móts við þessar kröfur þurfa kennsluhættir að vera með þeim hætti að í námi sínu öðlist nemendur jafnframt markvissa þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum sem snúa að samskiptatækni, tölvukunnáttu og sérhæfðri tækniþekkingu ásamt kunnáttu til að afla sér upplýsinga eftir þörfum sem stuðla að áframhaldandi þekkingarleit og færni. Allt miðar þetta að því að undirbúa nemendur sem best undir áframhaldandi nám og störf í síbreytilegu samfélagi þar sem gildi símenntunar eykst stöðugt. Að
lokum má geta þess að menntamálaráðuneytið hefur
veitt þessari viðleitni brautargengi með ýmsum hætti. Fyrst
skal nefna námsleyfi skólaárið 2002-2003 – þrátt fyrir stuttan starfsaldur – til að vinna að meistaraprófsverkefninu. Við úthlutun styrkja menntamálaráðuneytisins til námsefnisgerðar í bóklegum
og verklegum námsgreinum á framhaldsskólastigi fyrir árið 2001 veittist
mér sömuleiðis sá heiður að fá styrk Í þessari greinargerð er almenn umfjöllun um lausnaleitarnám, uppruna þess, framkvæmd, tengsl þess við tölvu- og upplýsingatækni, hugmyndafræði og kenningar og rannsóknir. Fjallað er um kosti lausnaleitarnáms og annmarka og leitast við að bera aðferðina saman við aðrar kennsluaðferðir. Ennfremur verður skoðað hvað gerir lausnaleitarnám eftirsóknarvert í augum kennara sem þegar hafa tekið það í þjónustu sína og hvað nemendum finnst um aðferðina. Þá er fjallað um lausnaleitarnám með hliðsjón af kröfum atvinnulífsins og hvers vegna kennarar og skólayfirvöld ættu að huga að því að taka lausnaleitarnám eða aðra sambærilega kennsluaðferð í þjónustu sína til að koma til móts við þær væntingar og kröfur sem gerðar eru til náms nú á tímum. Í lokakafla þessarar greinargerðar er gerð grein fyrir framtíðaráformum varðandi þróun upplýsingasetursins. |
||||||||||||
© 2003 Þórunn Óskarsdóttir |