Bréfið í heild:

Sæl Þórunn Óskarsdóttir og vinir,

Ég heiti Ingibjörg Björnsdóttir og er jarðfræðingur og umhverfisfræðingur. Ég lærði hefðbundna jarðfræði í H.Í. en fékk síðan styrk frá Svenska Instituted í Stokkhólmi og fór í Problem Based Learning International Mastersnám í Umhverfisvísindum sem kennt er í Chalmers Tækniháskólanum í Gautaborg www.chalmers.se.

Við fórum eftir PBL aðferðafræðinni - fengum raunveruleg verkefni til að leysa, - unnum í hópum og lásum og leystum verkefnin sjálf. Fyrirlestrar voru í lágmarki en voru samt nokkrir til þess að koma okkur af stað. Eitt einstaklingsverkefni var og síðan voru próf í lok hvers þema (4.þemu).  Einnig skrifaði hver nemandi mastersritgerð. 

Mér fannst PBL aðferðafræðin alveg stórkostleg.  Það kom í ljós að hún hentar mér mjög vel. Mér fannst gaman að vinna í hópum og ég las miklu meira en ég hefði gert í hefðbundnu námi. Við nemendurnir vorum í skólanum alveg frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin. Við vorum með aðgang að súper fínum tölvum, interneti og upplýsingabönkum. Þetta pbl nám reyndist vera alveg frábær skóli og mér finnst pbl mun skemmtilegra en hefðbundið nám.

Eftir að kúrsunum lauk skrifaði ég að sjálfsögðu mastersritgerð en það var auðveld vinna eftir að hafa verið eitt ár í pbl.

Í dag vinn ég á verkfræðistofu og vinnan hjá mér er mikið eins og pbl. Ég fæ inn verkefni sem þarf að leysa  t.d. það vantar vatn á Bolungarvík strax til þess að rækjuvinnslan geti stækkað. Hvernig leysir maður slíkt mál ? Ég þarf að finna það út,  lesa mér til og komast að niðurstöðu. Aðeins PBL getur undirbúið mann undir svona vinnu þar sem verkefni eru fjölbreytt og ólík - og maður þarf sífellt að vera tilbúinn til þess að bregðast við nýjum aðstæðum.  Þetta er svipað og hjá læknunum sem fá sífellt nýja sjúklinga sem kvarta um mismunandi einkenni.

Jæja, en ég hef sem sagt farið í gegnum PBL mastersnám og mér líkaði það mjög vel. Vonandi gengur vel að koma PBL námi á fót á Íslandi.

Með kærri kveðju
Ingibjörg E. Björnsdóttir
Umhverfisráðgjafi/Environmental consultant

_______
Birt með leyfi höfundar sem sendi þetta bréf
að eigin frumkvæði hér á vefnum